Eins og margir vita er Valentínusardagurinn næstkomandi fimmtudag eða 14. febrúar. Þótt sumir álíti að þetta sé bandarísk hefð fer því víðsfjarri enda á hefðin uppruna sinn í Evrópu á 14. öld. Á þessum degi elskenda er til siðs að þeir færi hvor öðrum gjafir og stjani við makann eins og ímyndunaraflið býður.


Eins og allir vita eru blóm tákn um væntumþykju og rauðar rósir tákn eldheitrar ástar. Á Valentínusardaginn er áætlað að um fimmtíu milljónir rauðra rósa séu gefnar á þessum eina degi um heim allan.

Rómeó og Júlía er sennilega frægasta leikrit sem skrifað hefur verið um elskendur. Ekki er langt síðan að það var sett upp í flutningi Vestursports og ættu Íslendingar því að vera verkinu kunnugir. Leikritið gerist í Veróna á Ítalíu og á hverju ári fær borgin stíluð rúmlega þúsund bréf á Júlíu.

Á Valentínusardaginn snýst þetta ekki endilega um að vera með stærsta vöndinn eða velja dýrasta veitingastaðinn til að koma ástinni sinni á óvart, enda margt í þessu lífi sem ekki verður metið til fjár.

Með því að leggja hausinn í bleyti er vel hægt að koma þeim sem stendur manni næst skemmtilega á óvart með glaðningi úr óvæntri átt eða öðrum uppátækjum.

En hvað svo sem menn hafa í bígerð varðandi þennan dag er upplagt að byrja hann á einhverju sætu og slá þannig tóninn fyrir það sem koma skal. Og þá er skúffuköku muffins eða muffins með súkkulaðimolum með morgunkaffinu alveg nauðsynlegt.

Deila |