Í frétt okkar á dögunum fjölluðum við um fyrsta jólakortið sem þrykkt var í London árið 1843 og teiknað var af einum fremsta listamanni Breta á þeim tíma, John Calcott. Það er oft fróðlegt að velta fyrir sér tilurð og uppruna hluta sem okkur þykja sjálfsagðir í dag og svo sannarlega á það bæði við um jólakort og jólafrímerki sem er viðeigandi umfjöllunarefni á þessum árstíma þegar jólin eru á næsta leyti.


Frétt okkar um jólakortin byggði á grein eftir Svein Ásgeirsson sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins 29. desember árið 1971. Það kennir ýmissa grasa í þessari Lesbók því Sveinn Ásgeirsson ritar auk þess grein um tilurð jólakortanna og þótt tímarnir hafi breyst og ný tækni hafi kannski tekið við af gömlum siðum og venjum þá höfum við hjá Kexsmiðjunni gamlar hefðir í heiðri og finnst því upplagt að grípa niður í grein Sveins og stikla þar á stóru um fyrsta jólafrímerkið.

Hjá Sveini kemur fram að frændur okkar Danir hafi verið fyrstir allra þjóða að gefa út jólafrímerkið. Þessi uppgötvun þeirra þótti svo snjöll að hún fór eins og eldur í sinu um gjörvalla heimsbyggðina og innan aðeins örfárra ára var vart til sú kristna þjóð sem ekki gaf út jólafrímerki.

Það var danski póstafgreiðslumaðurinn Einar Holböll (1865-1927) sem fékk hugmyndina að fyrsta jólafrímerkinu þegar hann vann við að flokka póst fyrir jólin 1903. Holböll ályktaði að hægt yrði að safna umt lsverðu fé við það að bæta frímerki við hvert bréf sem bæði myndi prýða bréfið og sýna velvild sendandans til líknarmála þangað sem ágóðinn af jólafrímerkjunum átti að renna líkt og fram kemur í grein Sveins.

Árið 1904 er svo hugmynd póstafgreiðslumannsins orðin að veruleika og fyrst jólafrímerkið lítur dagsins ljós fyrir jólin 1904. Á frímerkinu var mynd af Louise Danadrottningu, eiginkonu Kristjáns IX og langalangömmu Margrétar Þórhildar Danadrottningar. Efst á kortinu stóð „Julen“ og neðst ártalið „1904“ en það var tvískipt og með danska skjaldarmerkinu í miðju.

Hérlendis virðast landsmenn ekki hafa verið lengi að tileinka sér þetta því samkvæmt grein Sveins kemur fyrsta jólafrímerkið hér út árið 1905 með mynd af hvítum fálka á fjólubláum grunni en fyrir ofan hann stendur „Barnahælið“ og fyrir neðan „Caritas“ sem er latína og merkir kærleikur. Þar er líklega verið að vísa í Barnahælið Karítas sem tók að sér að annast börn fátækra mæðra og veitti Ragnheiður Hafstein, eiginkona Hannesar Hafstein, heimilinu forstöðu.

Deila |

Lestu skyldar fréttir og um vöruna