Hér má sjá gamalt jólakort af jólasveini arka upp Bankastrætið. Hægra megin sést svo í söluturninn á Lækjartorgi sem lengi var staðsettur þar.Margar íslenskar fjölskyldur hafa það sem sið á aðventunni að skrifa jólakort og senda til ættingja sem tákn um vináttu og hlýhug. En hvaðan skyldu þau eiga uppruna sinn og hvenær? Í grein Sveins Ásgeirssonar í Morgunblaðinu þann 29. desember árið 1971 sem ber yfirskriftina „Uppruni jólakortanna“ rekur hann sögu jólakortsins og hvernig það barst til Íslands.

Í greininni bendir Sveinn á að fyrsta jólakortið hafi verið teiknað árið 1843. Maður að nafni Henry Cole varð sá fyrsti til að fá hugmyndina að jólakorti og eins og Sveinn nefnir í grein sinni hefur hann ábyggilega ekki haft hugmynd um hve vinsæl þau áttu eftir að verða um allan heim. Vinur Cole, John Calcott Horsley sem var einn af þekktustu listamönnum Bretlands á þeim tíma teiknaði fyrsta jólakortið og var það þrykkt í London árið 1843.

Frá Bretlandi bárust jólakortin til Norðurlandanna á áttunda áratug 19. aldar. Upphaflega var fyrirmyndin ensk þótt þau hafi vitanlega tekið breytingum í tímanna rás og álítur greinarhöfundur að jólakortin hafi borist til Íslands um líkt leyti og þau voru tekin upp í Danmörku.

Áratugum saman er nær eingöngu um dönsk jólakort að ræða hérlendis með áletruninni „Glædelig Jul og godt Nytaar“. En sá tími rann vitanlega upp að farið var að prenta íslenskar jólakveðjur á kortin og líkast til hafa þær vart verið mjög frábrugðnar þeim jólakveðjum sem standa á jólakortunum í dag.

Hjá mörgum fjölskyldum er það hefð að setjast niður í upphafi aðventunnar og skrifa jólakort til vina og ættingja. Á slíkum stundum er upplagt að hlusta á uppáhalds jólaplötuna sína og hafa smákökurnar frá Kexsmiðjunni til þess að gæða sér á milli þess sem jólakveðjurnar sem munu ábyggilega fara víða og gleðja marga eru skrifaðar.
Deila |