Þingvellir eru vinsælir til lautarferðaSumarið fór seint af stað í ár en nú er veður hið ágætasta víðast hvar um landið. Þegar veður er gott er kjörið að taka saman einfalt og gott nesti, pakka niður góðu teppi, setja kaffi á brúsa og leggja land undir fót í lautarferð.

Lautarferð er í rauninni nokkuð sérkennilegt fyrirbrigði. Í lautarferð gerir fólk sér far um að fara eitthvert til að borða úti í náttúrunni. Í raun mætti segja að lautarferð sé einskonar leiðangur lífsleikninnar, leiðangur þar sem ánægjan er uppskorin á áfangastaðnum í faðmi náttúrunnar og góðra vina.

Á Íslandi eru margir góðir staðir til fyrir lautarferðir. Í nágrenni Akureyrar er vinsælt að fara í Kjarnaskóg, Lystigarðinn, Leynishóla eða einfaldlega í Vaglaskóg. Á Austurlandi er Hallormsstaður kjörinn fyrir lautarferðir en fallegir firðir eru einnig ákjósanlegir og af þeim er nóg af, bæði á Austurlandi og á Vestfjörðum.

Í nágrenni Reykjavíkur eru einnig margir notalegir staðir til að bregða sér í lautarferð. Heiðmörk, Hvalfjörður, Esjan, Mosfellsdalur og auðvitað Þingvellir þar sem kynslóð eftir kynslóð landsmanna hefur notið útiveru og góðs matar eru allt frábærir staðir.

Góð stund með fjölskyldunni
Það er engin þörf á því að eiga sérstaka körfu tilbúna með helstu áhöldum fyrir lautarferðina. Það er nóg að vita að nauðsynlegt er að taka með sér bolla, glös og diska, hnífapör og áhöld eins og tangir og spaða, einn beittan hníf, skurðarbretti, servíettur og ekki gleyma tappatogara eða upptakara. Þá þarf einnig að taka með plastpoka fyrir ruslið, þykkt og gott teppi og þá er ekkert því til fyrirstöðu að taka hentugt nesti. Auðvitað er hentugt að eiga góða körfu til að setja dótið í.

Í lautarferð er maturinn sjaldnast hafður heitur. Hentugur matur er því dæmigerður fingramatur, samlokur, vefjur og formfastar kökur. Reyndar er Veganesti Kexmiðjunnar einstaklega þægilegt í lautarferðum. Bakkelsinu er pakkað í umbúðir stykki fyrir stykki og því getur hver og einn fengið sér gott með kaffinu, þegar hentar. Í Veganesti fást núna grófar múslíkökur, vínarbrauð, kanilsnúðar og súkkulaðikökur.

Lautarferðir eru skemmtilegar fyrir fjölskylduna jafnt sem ung pör í tilhugalífinu. Svo lengi sem hlýtt er í veðri, þurrt og vindurinn lætur ekki á sér kræla, er líklegt að stundin verði afar ánægjuleg. Þannig má leyfa lífinu að leika við sig.

Deila |