Á öldum áður hefði líklega engan grunað að þurrkað kjöt úr aldini kókospálma sem vex í hitabeltinu yrði órjúfanlegur hluti af íslenskri jólahefð. Það er eitthvað við kókosbragðið sem passar svo vel við kex og kökur. Þess vegna eru kókostopparnir okkar svo vinsælir að þeir stoppa varla við í verslununum.

Kókostopparnir eru bakaðir eftir hefðbundinni uppskrift og geta margir hreinlega ekki hugsað sér jólin án þeirra. Súkkulaðibráðin fullkomnar þessar vinsælu jólasmákökur, enda eitthvað við súkkulaði og kókosbragð sem fellur að bragðlaukum flestra.

Kókoshnetan, sem er í raun ekki hneta heldur ávöxtur, er merkileg fyrir þær sakir hvað hægt er að nýta hana á fjölbreyttan hátt. Fyrir það fyrsta eru hneturnar fullar af kókosvatni, sem hægt er að drekka beint úr hnetunni.

Brún skurnin utan um hnetuna er hörð viðkomu. Fyrir innan hana eru trefjar sem eru unnar og notaðar meðal annars í kaðla og mottur. Því næst kemur aldinkjötið sjálft, hvítt og ferskt. Úr því er unnin kókosolía, kókosmjólk og auðvitað kókosmjölið, sem við notum í kókostoppana okkar.

Hugsaðu um bragðið af kókoshnetunni næst þegar þú gæðir þér á kókostoppunum frá Kexsmiðjunni. Hugleiddu ferðalagið sem þurfti til að kókoshnetan sem óx í hitabeltinu kæmist í kökuna í eldhúsinu þínu. Njóttu þess að slappa af á aðventunni með þínum nánustu og bjóddu með þér.

Deila |